31. jan. 2020 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg hefjast í sumar

Garðabær og Vegagerðin hafa gert með sér samning vegna framkvæmda við vegamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás. 

  • Undirskrift samnings vegnaf ramkvæmda við Hafnarfjarðarveg.
    Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Guðbjörg Brá Gísladóttir byggingarverkfræðingur hjá Garðabæ, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Einar M. Magnússon tæknifræðingur hjá Vegagerðinni.

Garðabær og Vegagerðin hafa gert með sér samning vegna framkvæmda við vegamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás. Samkvæmt samningnum verður Vífilsstaðavegur breikkaður frá Hafnarfjarðarvegi að Litlatúni og hringtorg sett upp við vegamót Vífilsstaðavegar og Litlatúns. Einnig verða gerð undirgöng undir Hafnarfjarðarveg við Hraunsholtslæk og farið verður í stígagerð og færslu hljóðvarnargirðinga.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu samninginn í ráðhúsi Garðabæjar í dag, fimmtudaginn 30. janúar. Í samningnum er nánar kveðið á um kostnaðarskiptingu á milli aðila um þetta samstarfsverkefni og verkið verður boðið út á næstunni af Vegagerðinni og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í sumar. Umsjónarmaður verksins af hálfu Vegagerðarinnar verður Einar M. Magnússon tæknifræðingur og af hálfu Garðabæjar Guðbjörg Brá Gísladóttir byggingarverkfræðingur á tækni- og umhverfissviði Garðabæjar.

Aukið öryggi vegfarenda og bætt umferðarflæði

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg. Fyrst verður farið í að gera hringtorg við Flataskóla, nánar tiltekið við vegamót Vífilsstaðavegar og Litlatúns, og undirgöng gerð fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Hafnarfjarðarveg við Hraunsholtslæk. Hraunholtslækurinn sjálfur verður einnig í undirgöngunum við hlið göngu- og hjólaleiðarinnar.

Akreinum á Hafnarfjarðarvegi verður fjölgað og beygjureinum breytt og fjölgað. Tvöföld vinstri beygja verður af Hafnarfjarðarvegi inn á Vífilsstaðaveg til austurs, tvöföld vinstri beygja verður af Vífilsstaðavegi inn á Hafnarfjarðarveg bæði til norðurs og suðurs, tvöföld vinstri beygja verður af Lyngási inn á Hafnarfjarðarveg og hægri beygja af Lækjarfit í framhjáhlaupi.

Áætlaður framkvæmdatími er um eitt ár.

Uppbygging á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu

Með endurbótunum á Hafnarfjarðarvegi verður bætt úr umferðarflæði við gatnamótin þar til hafist verður handa við að gera stokk á Hafnarfjarðarveginum skv. samgöngusamkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins frá því í október 2019. Samkvæmt því tímamótasamkomulagi sem Garðabær, ásamt fimm öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu gerði við íslenska ríkið, er m.a. gert ráð fyrir stokk á Hafnarfjarðarveginum á árunum 2028-2030. Það er í samræmi við aðalskipulag Garðabæjar þar sem er gert ráð fyrir að Hafnarfjarðarvegur verði lagður í lokaðan stokk og gatnamót verði mislæg.

Sjá einnig frétt hér á vef Garðabæjar frá því í nóvember 2019um endurbætur Hafnarfjarðarvegar.