Nýr samskiptasáttmáli Garðabæjar
Nýr samskiptasáttmáli Garðabæjar hefur nú tekið gildi. Hann er unninn með það að leiðarljósi að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna.
Samskiptasáttmála Garðabæjar er ætlað að stuðla að jákvæðum samskiptum og auka þekkingu barna, forráðafólks og starfsfólks á einkennum samskiptavanda og eineltis. Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gefa lífinu gleði og innihald. Þjálfun barna í samskiptafærni er því afar mikilvæg.
Alls staðar þar sem fólk kemur saman geta komið upp samskiptamál. Ef gripið er fljótt inn í og með samstilltu átaki heimilis, skóla og annarra ábyrgðaraðila er hægt að minnka líkur á alvarlegum afleiðingum. Með aukinni þekkingu og markvissri þjálfun barna eiga hlutaðeigandi aðilar að: geta brugðist við, vita hvert skal leita og hvernig er unnið úr málum.
Samskiptasáttmála Garðabæjar má skoða í heild sinni hérna . Í honum má finna upplýsingar um hvernig samskiptamál eru skoðuð og flokkuð, hvernig unnið skal úr samskiptamálum og skilgreiningar á helstu hugtökum sem sáttmálinn byggir á svo nokkur dæmi séu tekin.
Samskiptasáttmáli Garðabæjar er unninn af stýrihópi sem skipaður er fulltrúum Álftanesskóla, Flataskóla, Garðaskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Urriðaholtsskóla. Hópurinn starfaði undir handleiðslu Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors í tómstunda- og félagsmálafræði. Grunn- og tónlistarskólafulltrúi Garðabæjar rit- og verkefnastýrði sáttmálanum.
Samskiptaáætlunin skal kynnt á hverju ári í öllum grunnskólum, frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum bæjarins. Endurskoða skal áætlunina á minnst tveggja ára fresti.