27. nóv. 2020 Fjölnota íþróttahús Framkvæmdir

Staða framkvæmda við fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri

Framkvæmdir við fjölnota íþróttahúsið sem nú er að rísa í Vetrarmýri hafa gengið vel í haust eftir að verkið hófst á ný í lok sumars. Heildarkostnaður við verkið er um fjórir milljarðar og er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í.

  • Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri
    Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri

Framkvæmdir við fjölnota íþróttahúsið sem nú er að rísa í Vetrarmýri hafa gengið vel í haust eftir að verkið hófst á ný í lok sumars. Heildarkostnaður við verkið er um fjórir milljarðar og er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í. Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hanna og byggja húsið skv. verksamningi við Garðabæ sem var gerður eftir alútboð á verkinu í lok árs 2018 en framkvæmdir hófust í byrjun árs 2019.

Samkomulag um úrlausn ágreinings

Í sumar var gert samkomulag um úrlausn ágreinings og gerðardómsmeðferð eftir viðræður og sáttaferli milli Garðabæjar og ÍAV til að leysa úr ágreiningi um kostnað við grundun hússins. Hvor aðili um sig lagði fram fjárhæð að 60 mkr skv. samkomulaginu. Málsaðilar voru sammála um að fjárhæð sú sem færi fyrir gerðardóm næmi um 200 mkr. Með samkomulaginu var tryggt að verkið gæti haldið áfram þar til niðurstaða um úrlausn málsins lægi fyrir.

Gerðardómur kom saman í haust og í niðurstöðum dómsins sem birtur var aðilum 23. nóvember sl. fellur um 166 mkr viðbótarkostnaður í hlut Garðabæjar og um 35 mkr á ÍAV. Í prósentum talið er það um 5% viðbótarkostnaður af heildarkostnaði verksins sem er um fjórir milljarðar.

,,Í gerðardómnum kemur fram að með samkomulaginu sem gert var í sumar var mikill sáttavilji hjá aðilum til að leysa úr í þeim ágreiningi sem var uppi og sérfræðingar frá báðum aðilum fóru gaumgæfilega yfir þá lausn sem var að lokum valin til að ljúka framkvæmd við grundun hússins og niðurrekstur staura. Einnig segir í niðurstöðu dómsins að ekki er talinn vafi á að mannvirkið þoli hugsanlegar grunnvatnsbreytingar í framtíðinni en að vafasamt hefði verið að upphafleg lausn hefði uppfyllt það skilyrði. Dómurinn telur að í því felist verðmæti fyrir Garðabæ við framtíðaruppbyggingu svæðisins umhverfis íþróttahúsið. Fyrir vikið fáum við enn betra mannvirki sem mun nýtast vel fyrir þá íþróttastarfsemi og heilsueflingu sem verður til staðar í húsinu fyrir íbúa Garðabæjar.“ segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar. 

Húsið tekur á sig mynd í Vetrarmýri

Í október var byrjað að reisa stálið í stálgrind hússins og er áætlað að þeirri vinnu ljúki um áramótin. Þegar stálgrindin verður komin upp verður byrjað að klæða veggi íþróttasalarins og steypa upp veggi stoðbygginga og húsið sjálft verður tilbúið í lok árs 2021 skv. áætlun.
Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Stærð íþróttasalarins verður um 80x120 m, með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 18.200m².

Frétt frá 16. október 2020 – Byrjað að reisa stálið í fjölnota íþróttahúsinu
Stálið reist í fjölnota íþróttahúsi í Vetrarmýri