30. jún. 2021 Grunnskólar Leikskólar Stjórnsýsla Þróunarsjóðir

Þróunarsjóðsverkefni leik- og grunnskóla aðgengileg á vefnum

Nú er hægt að skoða þróunarsjóðsverkefni leik- og grunnskóla í Garðabæ hér á vef Garðabæjar á aðgengilegri hátt en áður. Lokaskýrslur þróunarverkefna eru birtar á nýjum undirsíðum þar sem verkefnin eru flokkuð eftir skólastigum: leikskólastig, yngsta stig grunnskóla, miðstig grunnskóla og unglingastig grunnskóla.

  • Kristjana og Sigríður Hulda
    Frá vinstri: Kristjana Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar, og Sigríðu r Hulda Jónsdóttir, formaður grunnskólanefndar

Nú er hægt að skoða þróunarsjóðsverkefni leik- og grunnskóla í Garðabæ hér á vef Garðabæjar á aðgengilegri hátt en áður. Lokaskýrslur þróunarverkefna eru birtar á nýjum undirsíðum þar sem verkefnin eru flokkuð eftir skólastigum: leikskólastig, yngsta stig grunnskóla, miðstig grunnskóla og unglingastig grunnskóla. Á hverju skólastigi er textaleit úr stuttri lýsingu um verkefnin, þar er hægt að setja inn heiti skóla o.fl. og einnig eru þar fellivalsgluggar þar sem hægt er að velja áhersluþætti og námsgreinar sem tengjast verkefnunum.

ÞRÓUNARSJÓÐSVERKEFNI LEIK- OG GRUNNSKÓLA - smellið hér

Miðvikudaginn 23. júní, var foropnun á þróunarsjóðssíðunum á vef Garðabæjar að viðstöddum þeim Sigríði Huldu Jónsdóttur, formanni grunnskólanefndar, Kristjönu Sigursteinsdóttur, formanni leikskólanefndar, Eiríki Birni Björgvinssyni, forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs og Eddu Sigurðardóttur grunn- og tónlistarskólafulltrúa. Í sumar verður unnið að því að bæta inn fleiri verkefnum á vefinn og skólar fá kynningu á þróunarsjóðssíðunum þegar nýtt skólaár hefst í haust.
,,Þróunarsjóðurinn skapar kennurum og öðrum fagaðilum skólanna mikilvægt tækifæri til nýbreytni og þróunar í störfum sínum. Slíkt eflir bæði námsumhverfi nemenda og starfsánægju. Vefurinn bætir aðgengi að upplýsingum um fjölmörg öflug þróunarverkefni og markmiðið er að skólasamfélagið njóti og nýti verkefnin til að gera gott skólastarf í bænum okkar enn betra.” sagði Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður grunnskólanefndar við þetta tækifæri.

Framþróun og öflugt innra starf leik- og grunnskóla

Markmið þróunarsjóða leik- og grunnskóla í Garðabæ er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi skóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar og aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og menningarsvið bæjarins í samstarfi við skóla geta sótt um styrk í þróunarsjóðina. Úthlutun úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla er einu sinni á ári og fjölbreytt verkefni hafa fengið styrki úr sjóðunum á liðnum árum eða allt frá árinu 2017 þegar sjóðirnir voru stofnaðir.

,,Frá upphafi hefur þróunarsjóðurinn haft mikil áhrif í leikskólum bæjarins. Við höfum séð mörg glæsileg verkefni verða til hjá okkar starfsfólki og sum þeirra hafa náð útbreiðslu til fleiri leikskóla jafnvel utan bæjarins. Sjóður er því hvatning fyrir okkar starfsfólk til að þróa nýjar hugmyndir og þessi vefur er öflugt tæki til þess að halda þessum verkefnum á lofti og miðla þeim áfram og vonandi eflir það í leiðinni leikskólastigið í landinu.“ sagði Kristjana Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar þegar vefurinn með þróunarsjóðsverkefnunum fór í loftið.