24. feb. 2021 Almannavarnir Grunnskólar Leikskólar Skólamál Stjórnsýsla

Covid-19: Nýjar reglur frá 24. febrúar

Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem taka gildi 24. febrúar. Jafnframt taka nýjar reglur um takmörkun á skólastarfi gildi 24. febrúar.

  • covid.is
    covid.is - upplýsingavefur fyrir almenning um COVID-19 faraldurinn

Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem taka gildi 24. febrúar. Heimilt verður að hafa að hámarki 200 viðskiptavini í verslunum, á söfnum, í kirkjum og á tilteknum viðburðum. Sund- og baðstöðum og skíðasvæðum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Sama máli gegnir um heilsu- og líkamsræktarstöðvar en þar er jafnframt óheimilt að hafa fleiri en 50 manns í rými. Á íþróttakeppnum verður nú heimilt að hafa áhorfendur. Þetta er megininntak tilslakana á samkomutakmörkunum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Gildistími nýrrar reglugerðar um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar er til og með 17. mars nk.

Reglur um grímunotkun verða óbreyttar og áfram verður 2 metra nándarregla meginviðmið en þó með ákveðnum undantekningum. 
Sjá nánar í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins þar sem sjá má reglugerð heilbrigðisráðherra og minnisblað sóttvarnarlæknis. 

Létt á takmörkunum í skólastarfi frá 24. febrúar

Almennt verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum, líka í háskólum. Regla um nándarmörk verður 1 metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nemenda og starfsfólks. Aðeins þarf að bera grímur ef ekki er unnt að virða 1 metra regluna. Á öllum skólastigum öðrum en á háskólastigi verður foreldrum, aðstandendum og öðrum utanaðkomandi heimilt að koma inn í skólabyggingar, að uppfylltum reglum um sóttvarnir. Þetta eru meginbreytingarnar á takmörkun skólastarfs sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gildistími nýrrar reglugerðar um takmarkanir á skólastarfi er til og með 30. apríl nk.

Líkt og verið hefur gilda engar fjöldatakmarkanir um nemendur í leikskólum, þeir eru undanskildir reglum um fjarlægðarmörk og reglum um grímunotkun. Í grunnskólum verður heimilt að hafa 150 nemendur í hverju rými en líkt og áður eru nemendur í 1. til 10. bekk undanskildir reglum um fjarlægðarmörk og reglum um grímunotkun.

Reglur tónlistarskóla munu taka mið af sambærilegum skólastigum.

Viðburðir tengdir félagsstarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum og í tónlistarskólum verða heimilir í skólabyggingum með þeim fjölda og nálægðartakmörkunum sem gilda á viðkomandi skólastigi.
Viðburðir þar sem gestir sitja: Heimilt verður að halda viðburði í skólum í samræmi við almennar reglur um samkomutakmarkanir.

Sjá nánar í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins þar sem sjá má reglugerð heilbrigðisráðherra og minnisblað sóttvarnarlæknis.