15. maí 2020 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Framkvæmdir að hefjast við Hafnarfjarðarveg

Framkvæmdir við endurbætur Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar eru að fara hefjast og standa yfir í sumar og fram til ársins 2021. 

  • Undirritun samnings um framkvæmdi við
    Frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, formaður skipulagsnefndar Garðabæjar, Pétur Kristjánsson, framkvæmdastjóri PK verk ehf, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Einar M. Magnússon, deildarstjóri framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Einar M. Magnússon, deildarstjóri framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, og Pétur Kristjánsson framkvæmdarstjóri PK verk ehf. undirrituðu verksamning um framkvæmd endurbótanna miðvikudaginn 13. maí sl. Fyrr á þessu ári gerðu Garðabær og Vegagerðin samning um framkvæmdir við vegamót Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás og framkvæmdin fór í útboð í vor þar sem PK verk ehf. og PK byggingar ehf. áttu lægsta tilboðið.
,,Það er mikil ánægjustund að þessar framkvæmdir við Hafnarfjarðarveg skuli nú hefjast enda hefur lengi verið barist fyrir þessu. Endurbæturnar koma til með að auka öryggi og flæði og bæta tengingu á milli hverfa í Garðabæ. „ sagði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, við undirritunina.

Hringtorg við Flataskóla í sumar

Á þessu ári verður farið í gerð hringtorgs við Flataskóla, á Vífilsstaðavegi við Litlatún. Byrjað verður á að færa lagnir og undirbúa fyrir breytingunum þar sem hringtorgið á að koma en það verður framkvæmt á meðan sumarfrí er í skólum. Í sumar verður einnig Vífilsstaðavegur breikkaður og endurbættur milli Litlatúns og Hafnarfjarðarvegar og hafist verður handa við gerð göngustíga og frágang á yfirborði og lagnavinnu fyrir veitufyrirtæki. Sumarið 2021 verður farið í breikkun og endurbætur á Hafnarfjarðarvegi milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss og breikkun og endurbætur á gatnamótunum við Lyngás. Þá verður einnig farið í gerð undirganga fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Hafnarfjarðarveg við Hraunsholtslæk. Hraunholtslækurinn sjálfur verður einnig í undirgöngunum við hlið göngu- og hjólaleiðarinnar.

Bætt öryggi og umferðarflæði

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg.
Akreinum á Hafnarfjarðarvegi verður fjölgað og beygjureinum breytt og fjölgað. Tvöföld vinstri beygja verður af Hafnarfjarðarvegi inn á Vífilsstaðaveg til austurs, tvöföld vinstri beygja verður af Vífilsstaðavegi inn á Hafnarfjarðarveg bæði til norðurs og suðurs, tvöföld vinstri beygja verður af Lyngási inn á Hafnarfjarðarveg og hægri beygja af Lækjarfit í framhjáhlaupi.
Með endurbótunum á Hafnarfjarðarvegi verður bætt úr umferðarflæði við gatnamótin þar til hafist verður handa við að gera stokk á Hafnarfjarðarveginum á árunum 2028-2030 skv. samgöngusamkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins frá því í október 2019.

Frétt á vef Garðabæjar frá því í janúar 2020 um undirritun samnings við Vegagerðina um framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi.
Sjá einnig frétt hér á vef Garðabæjar frá því í nóvember 2019 um endurbætur Hafnarfjarðarvegar.