10. jan. 2019 Framkvæmdir Hafnarfjarðarvegur

Góð mæting á íbúafund um Hafnarfjarðarveg og Lyngássvæðið

Miðvikudaginn 9. janúar sl. var haldinn íbúafundur í Flataskóla þar sem farið var yfir tillögu Vegagerðarinnar að bráðabirgða endurbótum Hafnarfjarðarvegar á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss ásamt gatnamótum sem nú er í forkynningu.

  • Lýðræðisstefna -leitað eftir umsögnum
    Nú hafa drög að endurskoðaðri lýðræðisstefnu Garðabæjar litið dagsins ljós. Leitað er til bæjarbúa eftir umsögnum um stefnuna.

Miðvikudaginn 9. janúar sl. var haldinn íbúafundur í Flataskóla þar sem farið var yfir tillögu Vegagerðarinnar að bráðabirgða endurbótum Hafnarfjarðarvegar á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss ásamt gatnamótum sem nú er í forkynningu.  Á fundinum var einnig kynning á tillögu að deiliskipulagssvæði Lyngássvæðis, L1 og L2, sem nú er í forkynningu. Afar góð mæting var á fundinn en rúmlega 100 íbúar og aðrir hagsmunaaðilar komu til að kynna sér tillögurnar.

Uppbygging á Lyngássvæðinu

Deiliskipulag Lyngássvæðis, L1 og L2, afmarkast af Lyngási, Ásabraut og Stórási. Tillagan byggir á áherslu rammaskipulags og stefnu aðalskipulags. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir fjölbýlishúsabyggð með áherslu á íbúðir fyrir ungt fjölskyldufólk en einnig atvinnuhúsnæði við Lyngás. Sjá nánar í skipulagsauglýsingu hér á vef Garðabæjar.

Góðar umræður á fundinum

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og fjölmargar spurningar voru lagðar fram. Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar var fundarstjóri en þau Sigurður Einarsson arkitekt frá Batteríinu, Ólafur Erlingsson frá Verkís, Anna Guðrún Stefánsdóttir frá Verkís, Baldur Grétarsson frá Vegagerðinni og Svanur Bjarnason einnig frá Vegagerðinni, sátu fyrir svörum. Þá svaraði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar einnig spurningum og sleit fundinum.

Markmið endurbótanna við Hafnarfjarðarveg er að auka öryggi vegfarenda og að bæta umferðarflæði með því að bæta aðgengi hliðarvega inn á Hafnarfjarðarveg. Málið mun hljóta meðferð sem framkvæmdaleyfisumsókn án deiliskipulags en ekki er vikið frá því markmiði að Hafnarfjarðarvegur verði síðar lagður í lokaðan stokk og gatnamót verði mislæg eins og aðalskipulag Garðabæjar gerir ráð fyrir.

Helstu breytingar við bráðabirgða endurbætur á Hafnarfjarðarvegi

Samkvæmt tillögunum sem kynntar voru á fundinum verður gert ráð fyrir hringtorgi við gatnamót Vífilsstaðavegar og Litlatúns/Flataskóla. Við Ásar og Grundir er gert ráð fyrir breytingum á stígum o.fl. næst Hafnarfjarðarvegi. Skipulagssvæði sem tilheyrir deiliskipulagi Hraunsholts eystra minnkar við gatnamót Lækjarfitjar og Hafnarfjarðarvegar. Einnig minnkar svæði sem tilheyrir deiliskipulagi Sveinatungureits sem nemur gatnamótum Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Við deiliskipulag Ásgarðs er gert ráð fyrir breyttri legu göngustígs við Hraunsholtslæk og á breytingum á fyrirkomulagi bílastæða. Við Hörgatún 2 er gert ráð fyrir skerðingu í norðvesturhorn lóðar vegna útfærslu á hringtorgi á gatnamótum Litlatúns og Vífilsstaðavegar.

Sjá nánar gögn í skipulagsauglýsingu hér á vefnum. 

Margar góðar ábendingar

Á fundinum komu fram margar góðar ábendingar sem nú verður unnið úr. Einnig er hægt að senda inn ábendingar um tillögurnar á netfangið skipulag@gardabaer.is en frestur til að skila inn ábendingum rennur út 28. janúar 2019.

Kynningargögn verða aðgengileg á vef Garðabæjar hér. Hægt er að nálgast upptöku af fundinum á fésbókarsíðu Garðabæjar þar sem hann var í beinni útsendingu.

Fjölmargir íbúar mættu á fundinn.

Fjölmargir íbúar mættu á fundinn.