21. sep. 2022 Atvinnulíf Garðatorg – miðbær Íbúasamráð Menning og listir Stjórnsýsla

Hvernig gerum við góðan miðbæ betri – hvernig vilt þú hafa Garðatorg?

Skipuð hefur verið undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ. Markmið nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg. Nú hefur samráðsgátt um mótun miðbæjarins verið opnuð.

  • Miðbær Garðabæjar
    Miðbær Garðabæjar

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar þann 16. júní sl. samþykkti bæjarstjórn að skipa undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ. Markmið nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg. Nefndin skal m.a. huga að heildarsýn fyrir Garðatorgssvæðið, framkvæmdum og tengingum frá Hofsstöðum auk nærliggjandi svæða, gatna og stíga þar sem markmiðið er aðlaðandi umhverfi og miðbæjarsvæði sem virkar. Þá skoði nefndin hvernig hugmyndasamkeppni geti nýst í þeirri vinnu. Þá skal nefndin kanna og rýna mögulegar áfangaskiptingar framkvæmda og tímaramma. Nefndin skal leggja áherslu á náið samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu.

Nefndin á að skila fyrstu niðurstöðum um miðjan október 2022 þannig að unnt verði að styðjast við þær við gerð fjárhagsáætlunar 2023-2026, en vinni síðan áfram og leggi fram fullgerðar hugmyndir á fyrri hluta árs 2023.

Leitað til íbúa -Samráðsgátt opin

Skoðun og sýn bæjarbúa á svæðinu er mikilvæg og opnuð hefur verið samráðsgátt um mótun miðbæjarins. Við hvetjum bæjarbúa til þess að senda inn hugmyndir, ábendingar og tillögur sem nýtast til að gera góðan miðbæ í Garðabæ enn betri. Nefndin mun í kjölfarið ásamt bæjarstjóra funda með hagsmunaaðilum á Garðatorgi og verður því samtali haldið áfram sem og samráðsgátt við íbúa bæjarins. Samráðsgáttin verður opin til og með 9. október 2022 og má nálgast hér að neðan.

Hvernig gerum við góða miðbæ betri? Hvernig vilt þú hafa Garðatorg?