9. sep. 2022 Íbúasamráð Stjórnsýsla Urriðaholt

Vel heppnaður fundur í Urriðaholtsskóla

Í september verður blásið til íbúafunda undir yfirskriftinni ,,Hvað finnst þér?“ með Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og sviðsstjórum hjá bænum.  Fyrsti fundurinn var haldinn miðvikudagskvöldið 7. september sl. í Urriðaholtsskóla þar sem íbúar Urriðaholts voru sérstaklega velkomnir. 

  • Íbúafundur í Urriðaholti 7. september 2022
    Íbúafundur í Urriðaholti 7. september 2022

Í september verður blásið til íbúafunda undir yfirskriftinni ,,Hvað finnst þér?“ með Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og sviðsstjórum hjá bænum. Fundirnir eru upplýsinga- og samráðsfundir þar sem boðið er í samtal um það sem íbúum liggur á hjarta. Íbúar Garðabæjar eru hvattir til að mæta á íbúafundina í september og taka þannig þátt í uppbyggilegu samtali um hvernig hægt er að vinna saman að því að bæta þjónustu og efla samfélagið.

 

Vel heppnaður fundur í Urriðaholtsskóla

 

Fyrsti fundurinn var haldinn miðvikudagskvöldið 7. september sl. í Urriðaholtsskóla þar sem íbúar Urriðaholts voru sérstaklega velkomnir. Á fundinum var Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar með stutt innlegg í byrjun fundar og því næst voru stuttar kynningar frá þeim Eiríki Birni Björgvinssyni sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, Svanhildi Þengilsdóttur sviðsstjóra fjölskyldusviðs, Guðbjörgu Brá Gísladóttur deildarstjóra framkvæmda- og umhverfis og Arinbirni Vilhjálmssyni skipulagsstjóra. Auk þeirra voru fleiri starfsmenn bæjarins til taks til að taka þátt í samtali við íbúa. Megináhersla á fundinum var að heyra raddir fundargesta og fá fram fyrirspurnir úr sal sem var leitað svara við. Á fundinum í Urriðaholti var m.a. rætt um framkvæmdir í hverfinu, samgöngumál, s.s. um leiðir inn og út úr hverfinu, almenningssamgöngur, umferðarhraða, félagsstarf fyrir börn og ungmenni og margt fleira.

Samantekt af fundunum og það helsta sem kemur fram á hverjum fundi verður birt á vef Garðabæjar að lokinni fundarröð.

Næsti fundur í Flataskóla 14. september kl. 19:30

Næsti íbúafundur í fundaröðinni verður haldinn í hátíðarsal Flataskóla miðvikudaginn 14. septembernk. kl.19:30-21:00.
Á fundinum verður kynning á helstu málefnum, s.s. skólamálum, fjölskyldumálum, umhverfismálum og framkvæmdum í hverfunum. Góður tími verður fyrir fyrirspurnir og umræður á staðnum og boðið verður upp á kaffi og veitingar um kvöldið.
Íbúar í Byggðum, Búðum, Bæjargili, Fitjum, Flötum, Garðatorgi, Hnoðraholti, Hæðum, Lundum, Móum, Mýrum og Túnum eru sérstaklega velkomnir á þann fund. Rétt er þó að taka fram að hverfaskipting á fundunum er eingöngu leiðbeinandi og allir fundir eru opnir öllum og íbúar geta mætt á þann fund sem hentar best.

Fundir 21. september og 27. september

Miðvikudaginn 21. september kl. 19:30 verður íbúafundur í Álftanesskóla þar sem íbúar í Álftanesi eru sérstaklega velkomnir. Síðasti fundurinn í fundaröðinni verður haldinn þriðjudaginn 27. september í Sjálandsskóla og þar eru íbúar Arnarness, Akrahverfis, Ásahverfis, Garðahverfis, Garðahrauns, Prýðishverfis, í Grundum, í Hleinum, í Hólum og Sjálandshverfis sérstaklega velkomnir.

Fyrir áhugasama sem vilja fylgjast með en komast ekki á fundina verður hægt að fylgjast með fundunum í beinu streymi. Fundirnir eru auglýstir hér í Garðapóstinum en einnig er hægt að nálgast upplýsingar um fundina hér á vef Garðabæjar, gardabaer.is og á facebooksíðu bæjarins