30. nóv. 2018

Fjölbreytt dagskrá á aðventunni í Garðabæ

Fjölmargir menningarviðburðir verða í boði á aðventunni í Garðabæ. Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern viðburð.

  • Jólatréð sett upp á Garðatorgi
    Jólatréð sett upp á Garðatorgi

Fjölmargir menningarviðburðir verða í boði á aðventunni í Garðabæ. Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um hvern viðburð. Hægt er að senda inn upplýsingar um viðburði í Garðabæ á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is til að fá þá birta í viðburðadagatalinu. Auk þess eru flest allir viðburðirnir kynntir á facebook á vegum þeirra sem halda viðburðina. Hér fyrir neðan eru nokkrir menningarviðburða á aðventunni framundan taldir upp.

Viðburðadagatal á vef Garðabæjar. 

Fyrsta helgin í aðventu – jóladagskrá á Garðatorgi og á Álftanesi – opið hús í Króki

Fyrstu helgina í aðventu verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi og jólatrénu á Álftanesi. Laugardaginn 1. desember verður hinn árlegi Jóla- og góðgerðardagur á vegum foreldrafélags Álftaness haldinn í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi frá kl. 12-16. Að lokinni dagskrá innandyra verða ljósin tendruð á jólatrénu fyrir utan íþróttamiðstöðina. Sama dag laugardaginn 1. desember verður líka jóladagskrá á Garðatorgi þegar ljósin verða tendruð á vinabæjarjólatrénu frá Asker kl. 16 fyrir framan ráðhús Garðabæjar. Fyrr um daginn á laugardeginum verður jólaleikrit í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og Hönnunarsafn Íslands verður með ókeypis aðgang að sýningum þess í tilefni dagsins. 

Sunnudaginn 2. desember verður aðventuopnun í burstabænum Króki á Garðaholti en þar verður opið hús frá kl. 13-17. Þar verður gamla jólatréð til sýnis og boðið upp á ratleiki fyrir börn.
Sögustund í Bókasafninu og áhugaverðar sýningar í Hönnunarsafninu

Í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi verður jólasögustund laugardaginn 15. desember en þá mætir Ævar Þór Benediktsson í safnið og les upp úr nýjustu bók sinni ,,Þitt eigið tímaferðalag“.
Í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg stendur nú yfir sýningin ,,Safnið á röngunni með Einari Þorsteini“ sem hefur vakið mikla athygli og tekur stöðugum breytingum. Þar er líka hægt að skoða sýninguna ,,Og andefni“ sem er opin vinnustofusýning í anddyri safnsins.

Tónleikahald á aðventunni – þýskt jólakvöld með Lilju og Bjarna – gospel - kertaljósatónleikar

Fjölmargir tónleikar verða haldnir í Garðabæ og víðar á aðventunni.  Tónlistarskóli Garðabæjar heldur fjölmarga jólatónleika í húsnæði skólans og víðar.  Í viðburðadagatalinu á vef skólans má sjá tónleikahaldið framundan. 

Kvennakór Garðabæjar heldur árlega aðventutónleika þriðjudaginn 4. desember kl. 20 í Digraneskirkju og nú þegar er orðið uppselt á tónleikana. Miðvikudaginn 5. desember kl. 20 verða aðventu- og jólatónleikar kórs Vídalínskirkju í kirkjunni.  Föstudaginn 7. desember kl. 20 verður haldið þýskt jólaboð með Lilju og Bjarna í Vídalínskirkju. Um er að ræða árlega aðventutónleika þýska sendiráðsins þar sem aðgangur er ókeypis og að þessu sinni er tekið við frjálsum framlögum á tónleikunum til styrktar Barnaspítala Hringsins. Jóla- og styrktartónleikar Gospelkórs Jóns Vídalíns verða haldnir í Vídalínskirkju sunnudaginn 16. desember kl. 20. Föstudaginn 21. desember kl. 21 verða árlegir kertaljósatónleikar kammerhópsins Camerarctica undir yfirskriftinni Mozart við kertaljós haldnir í Garðakirkju. Á Þorláksmessu heldur Jóhanna Guðrún tónleika í Vídalínskirkju.
Auk þess verða margir viðburðir tengdir aðventunni á vegum Garðasóknar og Bessastaðasóknar.