30. des. 2024

Árið 2024 í Garðabæ

Nú þegar áramótin nálgast er gaman að staldra við og líta yfir farinn veg. Hér höfum við tekið saman nokkrar fréttir af vef okkar sem einkenna árið 2024. Gleðilegt nýtt ár!

Janúar

Við byrjuðum árið á að útnefna Garðbæinginn okkar 2023 og var það Páll Ásgrímur Jónsson sem hlaut nafnbótina: Páll Ásgrímur er Garðbæingurinn okkar.

ÍTG tilkynnti einnig um íþróttafólk Garðabæjar árið 2023 en það voru þau Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- ogkörfuboltakona og Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaðurStjörnunni sem voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl ársins 2023 á íþróttahátíð Garðabæjar. Þar voru einnig veitt verðlaun fyrir þjálfarar ársins, lið ársins og heiðursviðurkenningar fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ.

Í janúar undirritaði svo Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, friðlýsingu Urriðakotshrauns semfólkvangs. Þess má geta að 40% af landsvæði Garðabæjar er friðlýst.

Febrúar

Í febrúar fór Safnanótt fram á höfuðborgarsvæðinu og ítilefni þess var frábær dagskrá sett upp í Garðabæ fyrir alla fjölskylduna. Garðbæingar létu vont veður ekki stoppa sig og fjölmenntu á Hönnunarsafn Íslands og á Bókasafn Garðabæjar.

Safnanott24-59-

Í kringum mánaðamótin febrúar og mars fór Almar ískemmtilegt tilraunarverkefni og flakkaði um bæinn með „skrifborðið sitt“ með það að markmiði að funda með íbúum heyra hvað þeim finnst um bæinn sinn. Margt fólk tók Almar tali á meðan á þessu verkefni stóð og er óhætt að segja að tilraunin hafi gengið vel. Tvö mál brunnu greinilega á íbúum, það voru umhverfismál og leikskólamál.

Mars

Í mars sögðum við frá því að nýir rafmagnsvagnar Strætó værufarnir að keyra um götur Garðabæjar. Fyrir leið 22 í Garðabæ þýðir þetta betra aðgengi þar sem rafvagnarnir eru stærri og notendavænni en þeir sem óku leiðina áður.

Apríl

Í vor setti Garðabær upp beint streymi hjá Tjaldaparinu Gerði og Garðari sem hafast við á þaki bæjarskrifstofunnar, ár eftir ár. Í streyminu var hægt að fylgjast með fuglunum og tveimur ungum þeirra. Myndavélinni var beint að fóðurstað fuglanna til að trufla ekki varpið. Mögulega krúttlegasta fréttin sem birtist á vef Garðabæjar þetta árið.

Garðar og Gerður

Í apríl fór Barnamenningarhátíð fram í Garðabæ. Þá fengu börn að skapa, njóta og upplifa ýmislegt spennandi á bókasafninu, á Hönnunarsafni Íslands, á Garðatorgi og í Minjagarðinum á Hofsstöðum. Hátíðinni lauk svo með dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Maí

Í byrjun sumars var tekinn til notkunar nýr stígur sem liggur í birkiskóglendi í Vífilsstaðahrauni. Stígurinn er þriggja metra breiður og rúmur kílómetri að lengd. Hann er upplýstur og malbikaður fyrir gangandi og hjólandi umferð innan hraunsins. Frábær viðbót við samgöngunet Garðabæjar.

Jazzþorpið var haldið í annað sinn dagana 3-5 maí, dagskráin var stórglæsileg og vakti mikla lukku. Bærinn iðaði að lífi og er hátíðin klárlega komin til að vera.

439914846_978633993859149_4594378785051431421_n

Öll húsgögn og munir þorpsins voru á vegum Góða hirðisins og til sölu. Hagnaður sölunnar rann til góðgerðamála.

Niðurstöður úr rafrænum kosningum Betri Garðabæjar vorukynntar í lok maí. Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu Garðabæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ. Atkvæði bæjarbúa streymdu inn í samráðsgáttina og hlutu 15 verkefni brautargengi í kosningunum.

Júní

Listum og menningu var gert hátt undir höfði í Garðabæ í júní.

Í júnímánuði sögðum við frá því að Manfreð Vilhjálmsson arkitekt var heiðraður fyrir ómetanlegt ævistarf. Þá var nýjum bæjarlistamanni Garðabæjar einnig fagnað en það var fiðlusmíðameistarinn Hans Jóhannsson sem var útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar 2024 . Við sama tilefni voru veittir styrkir úr Hvatningarsjóði ungra hönnuða og listamanna.

Jónsmessugleði Grósku fór einnig fram í sumar með stórsýningu Í Gróskusalnum á Garðatorgi. Af því tilefni buðu listamenn gestum og gangandi m.a. á vinnustofur sínar og boðið var upp á tónlistaratriði og fleira skemmtilegt.

Júlí

Í júlí var ánægjulegt að geta sagt frá því að umfangsmiklar breytingar sem gerðar voru á leikskólaumhvefinu í bænum höfðu skilað árangri. Leikskóladeildir loka sjaldnar vegna fáliðunar eftir að breytingarnar voru gerðar og hefur dregið verulega úr álagi á starfsmenn og veikindadögum fækkað.

Ágúst

Í tilefni af Hinsegin dögum í ágúst var flaggað fyrir utan ráðhús Garðabæjar við Garðatorg og regnbogagöngugatan skartaði sínu fegursta eftir að sumarstarfsmenn Garðabæjar sáu um að hressa upp á litina einn góðan veðurdag í sumar.

Flaggað í tilefni Hinsegin daga

September

Með haustinu sögðum við nokkrar fréttir af lærdómsfúsu starfsfólki hjá Garðabæ sem skráði sig á íslenskunámskeið . sem Garðabær býður starfsfólki sem hefur annað móðurmál en íslensku upp á. Meginmarkmiðið er að efla notkun íslenska tungumálsins inni á stofnunum bæjarins og að styrkja stöðu starfsfólks sem eru innflytjendur í bæði leik og starfi. Íslenskukennarinn Beata Líf sagði aldrei of seint að læra nýtt tungumál.

Sjá einnig: Uppáhaldsfrasinn er „þetta reddast“ | Fréttir | Garðabær

Íslenskunámskeið fyrir starfsfólk Garðabæjar

Nemendur á íslenskunámskeiði.

 

Í byrjun september voru Umhverfisviðurkenningar Garðabæjar veittar fyrir árið 2024 við hátíðlega athöfn í Sveinatungu á Garðatorgi. Þetta er alltaf skemmtilegt verkefni og gaman að vekja athygli á þeim fjölmörgu snyrtilegu lóðum og svæðum sem prýða bæinn okkar. Að þessu sinni veitti umhverfisnefnd íbúum í Árakri 28, Gerðakoti 3, Hliðsnesi 1, Keldugötu 2 og Unnargrund 11, viðurkenningar fyrir snyrtilegar lóðir við íbúðarhús. Viðurkenningu fyrir snyrtilega götu fá íbúar við Stórakur og viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækis fær Golfklúbburinn Oddur.

Í September sögðum við frá því að Garðbæingar eru orðnir 20 þúsund talsins. Ævar Smári Matthíasson reyndist vera 20 þúsundasti Garðbæingurinn en hann kom í heiminn í júní og kíktum við að sjálfsöðu í heimsókn til hans.

Október

Framkvæmdum við endurnýjun á göngubrúnni við Vífilsstaðavatn lauk í október. Upprunalega var umrædd brú smíðuð á staðnum árið 1994 af þáverandi smið bæjarins, Guðmundi Jónssyni. Sumarið 2022 kom í ljós að kominn var tími á endurnýjun brúarinnar og var ráðist í framkvæmdina í lok ágúst. Nýja brúin var svo tekin í gagnið í lok október.

Í október greindum við frá því að leikskólinn Urriðaból við Holtsveg er fyrsta leikskólaverkefnið sem hlýtur Svansvottun samkvæmt nýbyggingarviðmiðum Svansins. Leikskólinn hlaut einnig Grænu skófluna, viðurkenningu fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.

Í október fór Rökkvan, árleg listahátíð með áherslu á grasrótina, fram á Garðatorgi með pompi og prakt og kom GDRN, KK og Jói Pé og félagar meðal annars fram á frábærum tónleikum.

Rokkvan-117

Nóvember

Menntamálin voru í forgrunni í nóvember en þá fór Menntadagur Garðabæjar fram í Urriðaholtsskóla. Þar komu um 500 kennarar og starfsfólk í leik- og grunnskólum saman og hlýddu á flotta og fjölbreytta dagskrá.

Síðar í mánuðinum bárust þær fregnir að Hrafnhildur Sigurðardóttir hefði hlotið Íslensku menntaverðlaunin menntaverðalunin fyrir fjölbreytta og hugmyndaríka útikennslu, þróun fjölbreyttra valgreina og leiðsögn fyrir kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.

Flottu starfi Tónlistarskóla Garðabæjar var svo fangað um miðjan mánuðinn en skólinn fagnaði 60 ára afmæli þetta árið. Haldið var upp á tímamótin með glæsilegum fjórföldum afmælistónleikum.

_C7A8074

Í nóvember fóru þá fram flottir og áhugaverðir viðburðir í tengslum við bókmenntahátíðina Iceland Noir. Meðal annars mættu metsöluhöfundarnir Anthony Horowitz og Sara Blædel í Sveinatungu á Garðatorgi og spjölluðu við Yrsu Sigurðardóttur og Elizu Reid. Rithöfundarnir Alex Falase-Koya og Ævar Þór Benediktsson hittu svo nemendur í sjöunda bekk í tónlistarskólanum og ræddu bækur og fleira skemmtilegt. Iceland Noir hátíðin: Alex og Ævar ræddu við 7. bekkinga í Garðabæ | Fréttir | Garðabær

Svo má ekki gleyma árlegu aðventuhátíðinni sem var með glæsilegasta móti og dagskráin þar stútfull af alls kyns flottum viðburðum.

Desember

Í byrjun desembermánaðar sögðum við frá því að kósíhúsið svokallaða á Garðatorgi hefur verið tekið í notkun en þar er hægt að setjast niður og eiga huggulega stund og fylgjast með mannlífinu á torginu. Skemmtileg viðbót á torgið.

Að ógleymdri fjárhagsáætluninni fyrir árið 2025 sem var kynnt núna í desember, í henni er lögð áhersla á sterkan rekstur sveitarfélagsins og framúrskarandi þjónustu við íbúa. Hún sýnir fram á að afkoma bæjarins og fjárhagsstaða styrkist enn frekar þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum, háa vexti og verðbólgu. 

Við kláruðum svo árið með því að hvetja fólk til að tilnefna „Garðbæinginn okkar 2024“ sem verður útnefndur strax á nýju ári.